Alexander Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Ístaki, einu stærsta verktakafyrirtæki landsins.
Alexander Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Ístaki, einu stærsta verktakafyrirtæki landsins.
Alexander starfaði áður sem fjármálastjóri hjá fiskeldisfyrirtækinu Matorku ehf. Þar stýrði hann fjármögnun og uppbyggingu framleiðslueininga og sinnti eftirliti með rekstri og samskiptum við fjárfesta.
Þar á undan starfaði hann sem sjálfstæður viðskiptaráðgjafi hjá VJI ráðgjöf og gegndi einnig stöðu framkvæmdastjóra og fjármálastjóra hjá Geysir Green Energy, þar sem hann stýrði fjárfestingum í sjálfbærum orkuverkefnum.
Alexander hefur þar að auki reynslu af fjármálageiranum, sér í lagi frá tíma sínum hjá Glitni, þar sem hann starfaði m.a. sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri á sviði áhættu- og fjárstýringar. Á starfstíma hans hjá bankanum þá starfaði hann bæði á Íslandi og í Noregi og hefur stýrt fjármögnunarverkefnum á alþjóðlegum vettvangi.
Alexander lauk Cand. oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1994 með sérhæfingu í endurskoðun, en áður hafði hann útskrifast af hagfræðibraut Menntaskólans við Sund árið 1990.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Alexander til liðs við Ístak. Honum fylgir mikil reynsla og þekking sem mun nýtast Ístaki vel. Alexander mun passa vel inn í stjórnendahóp Ístaks og eins í það öfluga og skemmtilega fjármálateymi sem þar starfar,“ segir Karl Andreassen, forstjóri Ístaks.
„Við óskum einnig Elfu Björgu Aradóttur fráfaranda framkvæmdastjóra fjármála Ístaks velfarnaðar í nýju starfi sínu og þökkum henni fyrir vel unnin störf og hennar framlag til fyrirtækisins öll þau ár sem hún starfaði hér.“