Anton Reynir Hafdísarson hefur verið ráðinn fjármála- og sölustjóri Málmsteypu Þorgríms Jónssonar. Undir ábyrgðarsvið hans falla auk fjármála, sölumál, viðskiptaþróun og markaðsmál. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

Þar segir að Anton komi með verðmæta reynslu að borðinu, en hann hafi frá árinu 2023 starfað hjá Icelandair í viðskiptaþróun og umbreytingum. Áður starfaði hann sem stjórnendaráðgjafi hjá Roland Berger í Svíþjóð og hjá Marel sem sérfræðingur í hugbúnaðardeild félagsins.

Anton er með MBA-gráðu frá IESE Business School í Barcelona og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Einar Rögnvaldsson framkvæmdastjóri segir ráðninguna vera til marks um þá sókn sem félagið er í.

„Málmsteypan hefur tekið stakkaskiptum frá því að sjóður Alfa Framtaks keypti fyrirtækið. Ráðist hefur verið í umtalsverðar fjárfestingar sem hafa stórbætt framleiðsluna og síðan hefur innflutningurinn hjá okkur verið í miklum vexti. Það eru talsverð tækifæri til staðar sem felast í því að auka umsvif á öðrum sviðum og þjónusta byggingaraðila, sveitarfélög og stóriðju enn betur. Anton verður lykil maður í þeirri sókn sem er framundan.”

Anton Reynir segist spenntur fyrir tækifærinu og þeim lærdómi sem að mun fylgja starfinu.

„Það er gífurlega spennandi að vera að ganga til liðs við Málmsteypuna. Um er ræða rótgróið fyrirtæki, sem er samt sem áður í verulegri sókn. Alfa Framtak hefur byggt á þeim trausta grunni sem fyrri eigendur höfðu reist og núna eru innviðir til staðar til þess að sækja enn hraðar fram. Ég tel að reynslan mín muni nýtast vel, en er jafnframt gífurlega spenntur fyrir þeim mikla lærdómi sem felst í því að skipta um vettvang.”

Um Málmsteypu Þorgríms Jónssonar

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar er leiðandi fyrirtæki í lausnum fyrir sveitarfélög, verktaka og fyrirtæki í stóriðju. Fyrirtækið hefur starfað frá árinu 1944 og var í eigu sömu fjölskyldu fram til ársins 2020, þegar sjóður í rekstri Alfa Framtaks tók við félaginu. Dæmi um vörur eru yfirborðslausnir, brunnar, rör, fittings og ýmis tengi. Framleiðsluhluti félagsins er jafnframt elsta starfandi endurvinnslufyrirtæki landsins, en fyrirtækið bræðir málma sem hefðu ella verið fluttir út.