Ásgeir Brynjar Torfason hefur verið ráðinn ritstjóri vikuritsins Vísbendingar sem Sameinaða útgáfufélagið (útgáfufélag Heimildarinnar) gefur út. Hann tekur við ritstjórn vikuritsins af Emil Dagssyni.
Vísbending er vikurit um viðskipti og efnahagsmál sem hefur komið út óslitið síðan árið 1983. Ásgeir Brynjar, sem er fyrrum lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur skrifað reglulega í Vísbendingu eða samtals um fimmtíu greinar í gegnum tíðina.
„Vikuritið Vísbending hefur mikilvægu hlutverki að gegna á þeim miklu efnahagslegu umbrotatímum sem við lifum nú um stundir við að stuðla að vönduðum skrifum í tengslum við endursköpun sem á sér stað á sviði heimsviðskipta og alþjóðlegra fjármála samhliða uppbyggingu efnahagslegrar umgjarðar þjóðfélagsins eftir heimsfaraldur á tímum loftslagsbreytinga og togstreitu á alþjóðavísu,“ er haft eftir Ásgeiri Brynjari í tilkynningu á vef Heimildarinnar.
Ásgeir Brynjar er með doktorspróf í fjármálum frá Gautaborg árið 2014 og MBA frá Ósló 2001 en upphaflega lærði hann heimspeki og hagfræði við Háskóla Íslands.