Áslaug Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til Alfa Framtaks sem sérfræðingur í framtaksfjárfestingum. Áslaug kemur til félagsins frá Saxo Bank í Kaupmannahöfn þar sem hún hefur starfað síðastliðin tíu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hjá Saxo Bank stýrði hún teymi innan markaða og fjárstýringar og sinnti þar áður fjölbreyttum hlutverkum innan áhættustýringar bankans. Áslaug er ein stofnenda KÖTLU Nordic, félags ungra athafnakvenna á Norðurlöndunum.

Þá er hún með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Applied Economics and Finance frá Copenhagen Business School.

„Ég geng til liðs við Alfa Framtak full eftirvæntingar og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi vexti og þróun félagsins. Teymi Alfa Framtaks er fullt af drifkrafti og hæfni sem ég hlakka til að vinna með að fjölbreyttum verkefnum í íslensku atvinnulífi eftir áratug erlendis,“ segir Áslaug, sem hefur störf hjá félagsinu 1. september næstkomandi.

Alfa Framtak rekur tvo framtakssjóði með með samtals 22 milljarða króna í áskriftarloforð. Sjóðir í rekstri Alfa Framtaks hafa fjárfest í fyrirtækjum á borð við Origo, INVIT, Travel Connect, Thor Ice Chilling Solutions, Nox Health, Greiðslumiðlun Íslands, og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar. 

Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks:

„Við erum spennt að fá Áslaugu til liðs við okkur. Hún er leiðtogi að eðlisfari og býr yfir dýrmætri reynslu erlendis frá sem mun nýtast okkur vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru."