Borealis Data Center hefur ráðið til starfa þrjá nýja stjórnendur. Bergþóra Halldórsdóttir mun stýra skrifstofu forstjóra, Blake E. Greene verður markaðsstjóri Borealis og Kristófer Kristinsson mun leiða vöruþróun fyrirtækisins.

Fyrirtækið kynnti í liðinni viku samstarf við IBM, en það mun gera fyrirtækjum um allan heim kleift að færa sig yfir í gagnahýsingu á Íslandi.

Bergþóra mun bera ábyrgð á samhæfingu verkferla innan fyrirtækisins og framgöngu strategískra verkefna ásamt forstjóra. Hún stýrði viðskiptaþróun hjá Íslandsstofu og hafði þar umsjón með gerð stefnumótunar stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskar útflutningsgreinar, starfaði sem ráðgjafi hjá Samtökum iðnaðarins og var lögmaður Samtaka atvinnulífsins.

Hún hefur einnig víðtæka reynslu af stefnumótun og samskiptum við íslensk stjórnvöld og erlenda og innlenda hagsmunaaðila sem og að samræma stefnumótandi markmið ólíkra aðila.

Blake mun vinna að stefnumótun, samskipta- og kynningarmálum hjá fyrirtækinu á erlendum og innlendum vettvangi. Auk þess sem hún mun fyrir hönd Borealis vinna að sameiginlegu alþjóðlegu markaðsstarfi útflutningsgreina á vegum Íslandsstofu og alþjóðasamskiptum.

Hún er með meistarapróf í evrópusamrunafræðum og hefur áratugareynslu í markaðssetningu, viðburðastjórnun og almannatengslum á fjölbreyttum vettvangi svo sem á vegum stjórnvalda, hugveitna, tækni og ferðaþjónustu, meðal annars sem verkefnastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík, markaðsstjóri hjá Iceland Travel, markaðsstjóri hjá Greenqloud (nú NetApp Iceland) og forstöðumaður skrifstofu forstjóra hjá Urban-Brookings Tax Policy Center í Washington D.C. Blake er háskólamenntuð í Bretlandi, Sviss, Póllandi og Tékklandi og hefur búið á Íslandi frá árinu 2016.

Kristófer mun stýra vöruþróun Borealis og styðja við alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf fyrirtækisins og þjónustu við lykilviðskiptavini. Hann kemur frá Kerecis þar sem hann hefur undanfarin ár aðstoðað við að uppbyggingu markaðsteymis hjá Kerecis á alþjóðavettvangi, ásamt því að hafa stýrt innleiðingu fjölda nýrra vara á Bandaríkjamarkaði.

Hann hefur einnig langan sölu- og þjónustuferil á bak við sig fyrir alþjóðleg vörumerki á borð við Porsche, Audi, Volkswagen og Skoda. Kristófer er viðskipta- og tölvunarfræðingur að mennt og liggur reynsla hans og styrkleikar bæði á fyrirtækja- og neytendamarkaði, við markaðssetningu, vörustjórnun og stefnumótun.

Borealis hefur einnig ráðið tvo sölustjóra austanhafs til að styrkja sölu í Evrópu, með áherslu á Bretland og Frakkland.