Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor, hefur verið ráðinn deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst. Hann hóf störf við háskólann á síðasta ári, en þá hafði Bjarni starfað sem prófessor við Háskólann í Reykjavík undangenginn áratug og sem formaður rannsóknarráðs háskólans frá árinu 2019.
Bjarni Már lauk stúdentsprófi frá MA árið 1999, embættisprófi í lögfræði frá HÍ 2005, MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá stjórnmálafræðideild HÍ árið 2007 og LL.M gráðu í haf- og strandarétti frá lagadeild háskólans í Miami í Flórída ríki í Bandaríkjunum árið 2007. Þá hlaut hann lögmannsréttindi árið 2008. Doktorsritgerð sína varði hann við Edinborgarháskóla árið 2012 undir leiðsögn Alan Boyle, eins þekktasta sérfræðings Bretlandseyja í alþjóðalögum. Hann er enn fremur fyrrum Chevening, Fulbright og Cobb-Family styrkþegi.
„Það er mikill styrkur fyrir Háskólann á Bifröst að fá Bjarna Má til að leiða lagadeild skólans. Sérþekking hans og reynsla mun nýtast vel í þeim verkefnum sem fram undan eru hjá lagadeildinni sem og háskólunum í heild sinni,” segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.
Eftir Bjarna Má liggur á fjórða tug fræðigreina í ritrýndum tímaritum og bókum, mestmegnis á alþjóðlegum vettvangi, auk þess sem ýmsar fræðigreinar eftir hann bíða nú birtingar í alþjóðlegum fræðiritum. Brill/Nijhoff forlagið gaf út bók eftir Bjarna Má árið 2015 og hann hefur flutt fyrirlestra víða um lönd.
„Bifröst rauf einokun í lagakennslu hérlendis fyrir rúmlega 20 árum og er leiðandi í fjarkennslu í dag“
Þess má svo geta að Bjarni Már hefur komið að ýmsum ráðgjafarverkefnum fyrir íslensk stjórnvöld, erlend ríki og einkaaðila og hafa þjóðríkin Sómalía og Nikaragúa vísað til fræðiskrifa hans í málflutningi þeirra fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.
Sjálfur segir Bjarni, að það hafi verið spennandi fyrir sig að taka við keflinu af Elínu H. Jónsdóttur, fráfarandi deildarforseta, sem leitt hafi margvíslegar umbætur og styrkt starfsemi deildarinnar verulega. „Háskólinn á Bifröst er brautryðjendaafl í íslenskri lögfræði. Bifröst rauf einokun í lagakennslu hérlendis fyrir rúmlega 20 árum og er leiðandi í fjarkennslu í dag,“ segir Bjarni Már.