Tulipop hefur ráðið Bjarnveigu Birtu Bjarnadóttur í starf rekstrarstjóra. Hún kemur til Tulipop frá ráðgjafafyrirtækinu HSE Consulting en þar starfaði hún einnig sem rekstrarstjóri. Bjarnveig Birta er með meistaragráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.
Tulipop hefur ráðið Bjarnveigu Birtu Bjarnadóttur í starf rekstrarstjóra. Hún kemur til Tulipop frá ráðgjafafyrirtækinu HSE Consulting en þar starfaði hún einnig sem rekstrarstjóri. Bjarnveig Birta er með meistaragráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.
Tulipop, sem var stofnað árið 2010, hefur síðastliðin ár lagt megináherslu á að þróa og framleiða vandað afþreyingarefni sem byggir á Tulipop heiminum.
„Ég hef fylgst með Tulipop búa til og byggja upp einstakt íslenskt hugverk fyrir börn þar sem áhersla er lögð á gæði, vináttu, fjölbreytileika, samvinnu og jákvæð skilaboð. Þetta er efnið sem ég vil sýna börnunum mínum og Tulipop hefur verið mjög vinsælt á mínu heimili. Tækifærin á markaði eru gríðarleg og ég er stolt að fá að taka þátt í þessari vegferð að kynna Tulipop fyrir börnum og foreldrum um allan heim. Þetta er ótrúlega spennandi tímapunktur til að koma inn í fyrirtækið og ég er full tilhlökkunar fyrir framtíðinni,“ segir Bjarnveig Birta Bjarnadóttir.
Stærsta verkefni Tulipop hingað til er framleiðsla 52 þátta teiknimyndaþáttaraðarinnar Ævintýri Tulipop. Framleiðslu þáttaraðarinnar er nýlokið en um 100 manns komu að framleiðslu þáttaraðarinnar, bæði á Íslandi og erlendis, og eru fyrstu 39 þættirnir nú þegar aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium.
Ævintýri Tulipop er fyrsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem fer í alþjóðlega dreifingu og nú þegar er þáttaröðin í sýningu í 12 löndum, m.a. í Bretlandi, Frakklandi, Kanada og Póllandi. Þá er í undirbúningi framleiðsla á þremur lengri sjónvarpsþáttum (3 x 30 mínútur) í samstarfi við RÚV og allar norrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar. Einnig er fjölbreytt úrval af Tulipop efni aðgengilegt á YouTube, á íslensku, ensku og frönsku, en efnið hefur nú þegar fengið um 3 milljón áhorf.
„Bjarnveig Birta gengur til liðs við félagið á mjög spennandi tímapunkti nú þegar teiknimyndaþáttaröðin Ævintýri Tulipop er að fara í sýningar víða um heim og framleiðsla fleiri vandaðra þáttaraða nú þegar í undirbúningi. Því fylgja stór tækifæri og möguleikar á að byggja upp vörumerkið enn frekar og ná samningum við sterka samstarfsaðila um framleiðslu leikfanga, bókaútgáfu, fatnað og margt fleira sem byggir á þessu vinsæla íslenska hugverki,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop.