Tveir nýir sviðsstjórar hafa verið ráðnir til Hagstofu Íslands samhliða skipulagsbreytingum sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum.

Margrét Kristín Indriðadóttir var ráðin til að stýra gagnasviði og Lárus Blöndal greiningarsviði.

Nýtt skipurit Hagstofu tók einnig gildi 1. apríl síðastliðinn og byggir á stefnumótunarvinnu síðustu mánaða. Í tilkynningu segir að breytingarnar taki mið að því að takast á við þær áskoranir sem felast í aukinni þörf samfélagsins fyrir gögn.

„Stafræn umbreyting samfélagsins hefur aukið ákall eftir aðgengilegum upplýsingum og gögnum sem nýtast stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi til ákvörðunartöku og eru þessar skipulagsbreytingar gerðar til að mæta þeim þörfum,“ segir Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.

Margrét er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og B.A.-gráðu í sálfræði með viðskiptafræði sem aukafag frá Háskóla Íslands. Hún hefur víðtæka þekkingu og reynslu af hagskýrslugerð og hefur meðal annars tekið þátt í og stýrt verkefnum á sviði gagnasöfnunar, gagnahögunar og gagnagreiningar hjá Hagstofunni og Kjararannsóknarnefnd.

„Það er mikill liðsstyrkur að fá þau Margréti Kristínu og Lárus í framkvæmdastjórn“

Lárus er með meistaragráðu í vinnumarkaðsfræði frá Warwick Business School, University of Warwick í Englandi og B.A.-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka þekkingu og reynslu af tölfræðigreiningu og nýtingu hagtalna hjá Hagstofunni, forsætisráðuneytinu og Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

„Það er mikill liðsstyrkur að fá þau Margréti Kristínu og Lárus í framkvæmdastjórn. Þau hafa yfirgripsmikla þekkingu á hagskýrslugerð sem mun nýtast vel í vegferðinni fram undan,“ segir Hrafnhildur.

Í framkvæmdastjórn Hagstofunnar sitja auk hagstofustjóra sviðsstjórar kjarnasviða stofnunarinnar og sviðsstjóri fjármálasviðs. Ólafur Arnar Þórðarson stýrir samskiptasviði og Elsa Björk Knútsdóttir fjármálasviði.