Egill Lúðvíksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi. Hann tekur við stöðunni af Gauta Reynissyni í sumar. Gauti hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa eftir átta ár hjá fyrirtækinu, því er segir í fréttatilkynningu.

Egill hefur starfað hjá móðurfélagi Heimstaden í Kaupmannahöfn síðustu fjögur ár við fjárfestingar, stefnumótun og fjármögnun á hinum ýmsu starfssvæðum fyrirtækisins.

„Egill átti stóran þátt í komu Heimstaden inn á íslenskan markað fyrir þremur árum og hefur starfað náið með skrifstofunni á Íslandi við fjármögnun og stýringu eignasafnsins hér.“

Fráfarandi framkvæmdastjóri, Gauti Reynisson, hefur starfað hjá félaginu, sem áður hét Heimavellir, frá árinu 2015. Í kjölfar yfirtökunnar leiddi Gauti innleiðingu á rekstrarmódeli Heimstaden, með kjörorðin vinaleg heimili að leiðarljósi, í þjónustu félagsins hér á landi.

„Þessi átta ár sem ég hef starfað hjá Heimstaden á Íslandi hafa verið uppfull af spennandi tækifærum. Ég er sérstaklega þakklátur því góða fólki sem ég hef verið svo lánsamur að vinna með. Fyrirtækið er í góðum höndum og vel búið undir framtíðina,“ segir Gauti Reynisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi.

„Við erum þakklát Gauta fyrir hans góðu störf og óskum honum alls hins besta í því sem framundan er hjá honum. Þökk sé Gauta og hans fólki, þá mæla 92% leigjenda Heimstaden á Íslandi í dag með fyrirtækinu sem leigusala. Við hlökkum til að starfa með Agli, sem er öflugur stjórnandi með yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi Heimstaden á Íslandi. Egill og framúrskarandi teymi starfsfólks Heimstaden á Íslandi munu halda áfram að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vinaleg heimili og góða þjónustu,“ segir Helge Krogsbøl, framkvæmdastjóri hjá móðurfélaginu Heimstaden.

Gauti Reynisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi.