Stjórn Ljósleiðarans hefur ráðið Einar Þórarinsson í starf framkvæmdastjóra félagsins en í tilkynningu segir að stefnt sé að því að Einar hefji störf eigi síðar en fyrsta október næstkomandi. Hann kemur til félagsins frá Sidekick Health en þar áður starfaði hann meðal annars hjá Advania og Vodafone.

Greint var frá því fyrr í sumar að Erling Freyr Guðmundsson, sem er í dag rekstrarstjóri atNorth myndi láta af störfum sem framkvæmdastjóri Ljósleiðarans þann 30. júní en yrði félaginu innan handar næstu mánuði. Dagný Jóhannesdóttir, forstöðumaður tækniþjónustu og afhendinga hjá félaginu, tók þá við sem staðgengill framkvæmdastjóra.

„Ljósleiðarinn er öflugt félag með jákvæða ásýnd og stendur á tímamótum um þessar mundir sem kallar á töluverðar breytingar hjá félaginu á næstu misserum, bæði í sölustarfi og uppbyggingu, rekstri og eftirliti með virkum innviðum um allt land,“ segir Einar í tilkynningunni.

„Að auki liggur fyrir að efla fjárhagslegan styrk félagsins og breytingar á eignarhaldi í því samhengi til að fá inn fé til uppbyggingarinnar sem og að takast á við verðugan keppinaut sem er kominn í erlenda eigu,“ segir hann enn fremur og vísar þar til Mílu.

Þá er haft eftir Birnu Bragadóttur, stjórnarformanni Ljósleiðarans, í tilkynningunni að það séu spennandi tímar framundan. Einar, sem býr yfir rúmlega tveggja áratuga reynslu sem stjórnandi, hafi á sínum starfsferli tekist á við fjölbreytt ábyrgðarsvið sem muni skipta sköpum í komandi vegferð.