„Þetta er verkefni sem ég myndi sjá eftir alla ævi ef ég stykki ekki til,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sem hefur verið ráðinn sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Hann tók við starfinu þann 1. júlí. Honum þykir vænt um að nýr meirihluti sveitarstjórnar hafi hugsað til hans. „Það eru 25 ár síðan ég bjó í Borgarnesi, það sem ég hef gert á öðrum vettvangi mun nýtast í sveitarfélaginu.“ Stefán hefur starfað hjá Arion banka síðastliðin tíu ár sem forstöðumaður greiningadeildar og bjó í Borgarnesi þar til hann var rúmlega tvítugur. „Fólk með fjölbreytta þekkingu úr fjármálakerfinu er að fara inn í sveitarstjórnarmálin í auknum mæli, það er spennandi.“ „Fyrstu verkefnin verða að funda með mínu nánasta samstarfsfólki og setja mig inn í þau mál sem eru mest aðkallandi og hitta allt fólkið uppfrá.“

Aðspurður um helstu áskoranir framundar nefnir Stefán helst skipulagsmálin. „Allt hangir saman við þau, hvernig við þróum byggðina þannig að við stækkum ekki of hratt og viðhöldum og stöndum undir væntingum til að sinna og skapa þá þjónustu sem fólk sækist eftir hér „Sífellt fleiri dæmi um að önnur fyrirvinnan sé á höfuðborgarsvæðinu, og það liggja tækifæri í því, þó það sé að sjálfsögðu ekki markmiðið að vera svefnbær fyrir höfuðborgarsvæðið. Borgarbyggð er mjög víðfeðmt og fjölbreytt sveitarfélag, mikill landbúnaður og matvælaframleiðsla. Hér eru háskólar, iðnaður, ferðaþjónusta svo ég tali ekki um allt lista- og menningarstarfið.“

Stefán Broddi er giftur Þuríði Önnu Guðnadóttur, hjúkrunarfræðingi og deildarstjóra á Landspítalanum Fossvogi. Þau eiga þrjá stráka á aldrinum 16 til 22 ára og tvo hunda til viðbótar. Þau búa núna í Garðabæ en Stefán er að leita sér að húsnæði í Borgarbyggð. „Planið er að reka tvö heimili, við munum búa jöfnum höndum á báðum stöðum til að byrja með.

Áhugamál Stefáns eru helst fótbolti, en bæði þjóðmál og efnahagsmál hafa verið honum ofarlega í huga, „ég hef verið svo heppinn að starfa við eitthvað sem er nánast áhugamál hjá mér.“ Því til viðbótar stundar hann fjallgöngur og hefur verið duglegur að taka hundana með, en annar þeirra er orðinn fótafúinn. „Mikið af fjöllum í Borgarbyggð, Hafnarfjall er klassískt og svo er Skarðsheiðin skemmtileg.“

Viðtalið við Stefán Brodda birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.