Við viljum styrkja Útilíf sem fyrsta áfangastað viðskiptavina í útivist og hreyfingu. Við höfum mikla trú á að útivist og hreyfing verði sífellt stærri hluti af daglegu lífi fólks,“ segir Elín Tinna Logadóttir sem tók við stöðu framkvæmdastjóra Útilífs í febrúar síðastliðnum.

Eigendaskipti urðu hjá Útilífi fyrir tveimur árum þegar Íslensk fjárfesting og J.S. Gunnarsson keyptu fyrirtækið af Högum. Útilíf opnaði nýja útivistarverslun í Skeifunni í lok febrúar en fyrirtækið rekur einnig íþróttavöruverslanir í Kringlunni og Smáralind ásamt því að halda úti sérverslun undir merkjum The North Face á Hafnartorgi.

„Við stefnum að því að stækka og láta meira til okkar taka á þessum markaði,“ segir Elín Tinna. „Við viljum byggja undir áframhaldandi styrk og vöxt fyrirtækisins og erum að fjárfesta töluvert í vörumerkinu okkar og innviðum en það þekkja flestir Útilíf sem fagnar 50 árum á næsta ári. Við erum einnig að vinna í að sækja ný og spennandi merki innan þessarar flóru sem hafa ekki verið fáanleg áður á Íslandi.“

Áður en hún hóf störf hjá Útilífi hafði Elín Tinna starfað hjá 66°Norður í fimmtán ár eftir að hafa byrjað sem sumarstarfsmaður. Á tíma sínum hjá 66°Norður starfaði hún m.a. sem verslunarstjóri, leiddi mannauðs- og þjálfunarmál og stýrði síðast fyrirtækja- og heildsölusviði.

Elín Tinna er stjórnmálafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands. Hún viðurkennir að starfsferill í smásölu hafi ekki verið hinn augljósi starfsvettvangur þegar hún stundaði nám en bætir við að stjórnmálafræðin sé góð að því leyti að hún veiti innsýn í ólíkar hliðar samfélagsins.

„Ferillinn hefur að mörgu leyti þróast þannig að maður leggur sig fram við að vinna verkefnin og vinnuna vel, sýna eldmóð og frumkvæði. Þá hef ég verið mjög lánsöm að tækifærin hafa svolítið fylgt mér. Ég ákvað aldrei hvað ég ætlaði að verða þegar ég var orðin stór en gæti ekki séð mig í öðrum geira í dag.“

Nánar er rætt við Elínu Tinnu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.