Björk Kristjánsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs hjá Carbon Recycling International (CRI). Gauti Reynisson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs CRI.

Björk hóf störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs árið 2020 og gegndi tímabundið stöðu forstjóra félagsins á árunum 2022-2024. Hún lætur af daglegum störfum í júní en tekur þá sæti í ráðgjafaráði CRI.

„Á því tímabili leiddi hún fyrirtækið í gegnum umfangsmikla fjármögnun sem lagði grunn að áframhaldandi vexti CRI, fjármögnun sem markaði tímamót í sögu fyrirtækisins. Í gegnum sinn feril hjá CRI hefur Björk verið burðarás í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað síðustu ár. Framlag hennar hefur verið veigamikið og víðtækt, og ekki bundið við einn flöt,“ segir í tilkynningu CRI.

Gauti Reynisson, nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs CRI, er fyrrverandi framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Heimstaden á Íslandi sem heitir í dag Ívera. Hann hefur undanfarið starfað sem framkvæmdastjóri hjá City Leisure Group í Sviss, þar sem hann leiddi þróun fjárfestinga í nokkrum stórborgum í Evrópu.

„Með komu Gauta styrkjum við stöðu CRI enn frekar til að byggja upp, þróast og vaxa á alþjóðamarkaði,“ segir í tilkynningunni.