Halla Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin sem rekstrarstjóri Avo. Hún hefur undanfarin ár starfað við rekstur vöruþróunar hjá leikjafyrirtækinu CCP Games og starfaði áður við greiningar hjá Deloitte og Nike.

Avo hjálpar fyrirtækjum að skilja notendaupplifun en fyrirtæki eins og Boozt.com, IKEA, Wolt og Fender notast meðal annars við gagnastjórnunarlausn Avo. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 af þeim Sölva Logasyni og Stefaníu Bjarney Ólafsdóttur, sem stýrðu áður gagnagreind hjá Plain Vanilla Games við gerð leiksins QuizUp.

„Halla kemur inn í Avo teymið af krafti. Þvílíkur fengur að fá svona fjölhæfa orkusprengju til liðs við okkur til að leiða rekstur og vera almennur þúsundþjalasmiður í öru umhverfi nýsköpunarfyrirtækis. Hún hefur þegar komið inn eins og stormsveipur og leitt verkefni af festu á flestum sviðum fyrirtækisins, frá viðburðastjórnun, til mannauðsmála og fjármála.” segir Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, forstjóri og meðstofnandi Avo.

Avo hefur tekið inn tæplega milljarð króna frá alþjóðlegum fjárfestum á borð við Y Combinator, GGV Capital og Heavybit, sem eru þungavigtasjóðir í Kísildalnum með sérþekkingu í að fjárfesta í ört vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum á borð við Stripe, Slack, Tiktok og Airbnb, sem og frá íslensku sjóðunum Crowberry, Brunni og Investa, sem hafa þegar stutt vel við teymið.

Halla er verkfræðingur að mennt sem sérhæfði sig í gagnagreiningu með MSc gráðu frá Imperial College London.