„Það er virkilegt að skemmtilegt að koma inn í svona skemmtilegt og samheldið teymi með góða stjórnendur. Avo er líka á mjög spennandi stað eins og er, vel fjármagnað og með stöðugar áskriftartekjur og stóra viðskiptavini, eins og Boozt.com, Fender og Ikea,“ segir Halla Berglind Jónsdóttir, nýr rekstrarstjóri Avo.
Hún kemur til fyrirtækisins frá CCP Games þar sem hún hefur starfað við rekstur vöruþróunar síðastliðin þrjú ár. Áður hafði hún starfað sem greinandi hjá Nike í Hollandi og Deloitte á Íslandi en stígur nú inn í nýsköpunarheiminn.
„Þetta er skemmtilegur bransi og verkefnin gríðarlega fjölbreytt. Maður þarf að geta stokkið í alls konar verkefni og kynnt sér málefni sem að maður hefur kannski ekki unnið í áður.“
Í frítíma sinnum er Halla mikið í útivist og fer til að mynda á skíði, í göngur, út að hlaupa og hjóla.
„Mér finnst gaman að prófa alls konar ef það er góð stemning. Ég er í frábærum gönguhóp sem heitir Gírun sem gerir mikið saman eins og að fara í stóra göngu á hverju ári og það er alltaf mikil spenna og gírun í kringum það,“ segir Halla.
Það er þó ekki aðeins í frítíma sínum sem Halla skapar stemningu en hún skipulagði meðal annars áhugaverðan viðburð þegar hún starfaði hjá CCP.
„Þá hélt ég hundrað manna "Bob Ross Paint-Along." Það var ótrúlega fyndið en verkefnið snerist um að geta gert eitthvað skemmtilegt en þetta var í miðjum heimsfaraldri. Maður var búinn að fara í ansi mörg fjar pub-quiz og bjórsmakkanir svo mig langaði að gera eitthvað nýtt þar sem allir gætu tekið virkan þátt. Þannig við fórum í það að senda öllum málningarvörur heim og svo máluðu allir heima hjá sér meðan við horfðum saman á Bob Ross myndbönd,“ minnist Halla.
Nánar er rætt við Höllu í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.