Hildur Björk Hafsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála og upplifunar hjá VÍS.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en þar segir að Hildur hafi víðtæka þekkingu á markaðsmálum og búi yfir umfangsmikilli reynslu sem stjórnandi.
„Undanfarið ár hefur Hildur starfað sem forstöðumaður hjá ISAVIA þar sem hún leiddi markaðsmál félagsins og upplifun farþega á Keflavíkurflugvelli. Þar áður starfaði Hildur sem forstöðumaður markaðsmála hjá Símanum. Hún er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og BS-gráðu í sömu grein frá Háskóla Íslands. Á árunum 2018-2022, sat Hildur Björk í stjórn ÍMARK, samtökum íslensks markaðsfólks,“ segir í tilkynningu.
Félagið á spennandi vegferð
Hildur Björk hefur störf 1. september nk. Hildur
„Ég er stolt af því að hefja störf hjá VÍS en mér finnst félagið vera á spennandi vegferð. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til þess að styrkja félagið enn frekar í sókn þess á íslenskum tryggingamarkaði,“ segir Hildur Björk í tilkynningunni.
„Við erum virkilega ánægð með að hafa fengið Hildi til liðs við okkar frábæra teymi. Hildur er reynslumikill leiðtogi og öflug markaðsmanneskja sem mun koma sterk inn í þau verkefni sem fram undan eru. VÍS er í umbreytingarferli og í mikilli sókn um land allt. Vörumerkið okkar og upplifun viðskiptavina eru þar í lykilhlutverki. Ég er sannfærð um að Hildur sé rétta manneskjan til þess að taka það áfram með okkur. Ég hlakka því til samstarfsins,“ segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS.