Hjálmar Helgi Rögnvaldsson mun leiða nýtt svið Viðskiptaþróunar og orkumiðlunar hjá Orku náttúrunnar. Hann kemur inn í framkvæmdastjórn félagsins en hann hefur starfað hjá ON síðustu 9 ár.

Hið nýja svið mun sinna orkumiðlun, orkukaupum, samningum við stórnotendur, öflun nýrra viðskiptatækifæra á stórnotendamarkaði, uppbyggingu Jarðhitagarðs ON og hinum ýmsu greiningum á raforkumarkaði.

„Þetta brýnir okkur enn frekar í þeirri vegferð sem við höfum verið á enda mikið af tækifærum sem þarna felast. Eitt þeirra felst í uppbyggingu Jarðhitagarðs ON. Það eru því vissulega spennandi tímar fram undan hjá Orku náttúrunnar,“ segir Hjálmar Helgi.

Auk þessara breytinga var í vikunni auglýst í starf markaðsstjóra ON sem mun horfa á markaðsmál og vörumerki félagsins og heyra beint undir framkvæmdastjóra.

„Þetta endurspeglar þær áherslubreytingar sem eru að verða hjá fyrirtækinu þar sem við viljum einblína meira á vörumerkið okkar og þau verkefni sem heyra undir hið nýja svið Viðskiptaþróunar og orkumiðlunar,“ segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.