Veitingamaðurinn Jón Haukur Baldvinsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri SSP á Íslandi en SSP sérhæfir sig í veitingarekstri á flugvöllum. SSP hefur 50 ára reynslu á ferðamarkaðinum og rekur um 2600 veitingaeiningar á flugvöllum og lestarstöðvum um allan heim.

Jón starfaði áður hjá Landspítalanum, Icelandair, Jamie Oliver, Coca-Cola European Partners og Icelandic Glacial. Hann hefur unnið fjölbreytt störf sem snúa að rekstri, markaðsmálum, uppbyggingar- og breytingastjórnun, sölustjórnun og deildarstjórnun.

Í stöðu sinni sem rekstrarstjóri mun Jón Haukur opna tvö ný veitingarými á annarri hæð í norðurbyggingu Keflavíkurflugvallar.

„Ég er virkilega ánægður að fá tækifæri að leiða rekstur SSP á Íslandi og opna Jómfrúnna og Elda Bistro á Keflavíkurflugvelli í næsta mánuði. SSP er öflugt fyrirtæki í mikilli sókn og það er gríðarlega spennandi að fá að leiða reynslumikinn rekstraraðila sem þennan í fjárfestingu í veitingarekstri á Íslandi,“ segir Jón.

SSP á Íslandi verður hluti af rekstrareiningu SSP í Noregi fyrst um sinn.