Karen Kjartansdóttir hefur bæst við hóp eiganda ráðgjafafyrirtækisins Langbrókar. Karen hefur um árabil unnið á sviði almannatengsla og stjórnendaráðgjafar.

Karen starfaði síðast hjá ráðgjafarfyrirtækinu Athygli en þar áður var hún framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar árin 2018-2021. Þar á undan starfaði hún hjá ráðgjafarstofunni Aton auk þess sem hún var samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á árunum 2013 til 2017.

Karen hefur einnig talsverða reynslu af fjölmiðlastörfum, sem blaðamaður og pistlahöfundur á DV og á Fréttablaðinu og síðar fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2.

Karen útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016 og er með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur lokið námskeiði í sjálfbærni og hringrásarhagkerfi frá Cambridge.

Langbrók veitir ráðgjöf á sviði samfélagsábyrgðar, sjálfbærni, almannatengsla, markaðsmála og breytingastjórnunar. Ráðgjöfin byggir á heildrænni stefnumörkun þar sem tækifæri fyrirtækja eru kortlögð með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi. Langbrók vinnur jafnframt með stjórnendum fyrirtækja að innleiðingu samfélagsábyrgðar og sjálfbærniskýrslugerðar þar sem stuðst er við alþjóðamælikvarða, UN Global Compact, Global Reporting Initiative (GRI), ESG/UFS og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SDG).

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Langbrók og mikill hvalreki að fá Karen til liðs við fyrirtækið. Við erum að mæta aukinni eftirspurn er varðar stefnumörkun og stjórnendaráðgjöf á sviði samfélagsábyrgðar. Stjórnendur eru að átta sig á mikilvægi þessa málaflokks og mun reynsla og þekking Karenar úr atvinnulífinu treysta heildræna ráðgjöf á þessu sviði. Snertifletir ólíkra atvinnugeira við umhverfi, efnahag og samfélag eru mismunandi og sjálfbærni áherslur eftir því. Innleiðingin kallar á nýsköpun og breytingar innan fyrirtækja sem leiðir til verðmætasköpunar og ábyrgra starfshátta.“ segir Soffía S. Sigurgeirsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Langbrókar.

„Í störfum mínum hef ég ávallt lagt áherslu á gagnsæi og að horft sé til umhverfis, siðferðis og samfélagslegra þátta enda er alveg ljóst að langtímahagsmuna fyrirtækja er best gætt með slíkum nálgunum. Kröfur um að fyrirtæki sinni þessum þáttum með markvissum hætti hafa farið mjög vaxandi undanfarin ár og munu aukast enn frekar í framtíðinni. Það eru því krefjandi en spennandi tímar fram undan í þessum efnum sem ég fagna að fá að vera hluti að,“ segir Karen.