Kristinn Sölvi Sigurgeirsson hefur tekið við stöðu fjármálastjóra hjá Kóða og dótturfyrirtækinu Keldunni.

Kristinn er viðskiptafræðingur að mennt og er að ljúka meistaranámi í fjármálum fyrirtækja frá HR. Síðastliðin fimm ár hefur hann starfað hjá Kóða, fyrst sem sérfræðingur og síðar sem vörustjóri. Hann segist í tilkynningu þakklátur samstarfsfólki sínu fyrir traustið.

„Fyrirtækið hefur verið á góðri vegferð á undanförnum árum og vöruþróun öflug, sem hefur skilað tilætluðum árangri. Það eru stór verkefni framundan og mun ég leggja mig allan fram við að styðja við áframhaldandi velgengni fyrirtækisins,“ segir Kristinn.

Kóði er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki með sérþekkingu á fjármálasviði og þróar fjártæknilausnir fyrir sérfræðinga á fjármálamarkaði.