Það leggst mjög vel í mig að taka við þessu starfi. Þó þetta séu auðvitað krefjandi tímar þá er KPMG stórt og öflugt félag sem er vel í stakk búið til að takast á við erfiðleika,“ segir Magnús Jónsson, sem tók nýverið við starfi sviðsstjóra endurskoðunar hjá KPMG. Hann segir stöðuna þó vera mjög sérstaka. „Maður fylgist með fréttum hvort það þurfi að hreyfa við starfstöðvum og færa til fólk eða eitthvað slíkt.“

Magnús býr á Egilsstöðum ásamt fjölskyldu sinni en hann ólst upp á Borgarfirði eystri. „Ég bý á Egilsstöðum en er með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og hér fyrir austan. Viðskiptavinir okkar eru víða um land. Ég og konan mín fluttum til Egilsstaða þegar við lukum námi og upphaflega stóð til að vera hér aðeins í eitt ár en hér erum við enn og líkar vel.“

Aðspurður segist Magnús hafa valið að mennta sig í endurskoðun sökum áhuga hans á lögfræði og viðskiptum. „Ég byrjaði á því að taka eitt ár í lögfræði og þótti mér þar vanta tölurnar svo ég skipti yfir í viðskiptafræði. Ég kláraði BS gráðu í fjármálum og síðan bætti ég við mig áföngum þannig ég gæti farið í löggildinguna í endurskoðun. Síðan vann ég hjá Ríkisskattstjóra í nokkur ár með námi og það ýtti klárlega undir áhuga minn á skattamálum.“

Hann bætir við að starf endurskoðandans sé afar fjölbreytt og hann sé á hverjum degi í samskiptum við margt fólk. „Það sem er í raun það skemmtilegasta við þetta starf er hvað maður kynnist mörgu frábæru fólki í gegnum starfið. Þá er ég bæði að tala um samstarfsfólk og viðskiptavini. Síðan hjálpar maður viðskiptavinum í mjög skemmtilegum hlutum og líka að styðja við bakið á mönnum í ágjöf.“ Hann segir jafnframt að í COVID hafi menn lært að nýta tæknina í meiri mæli. „Um þessar mundir telst það ekki til hindrana að vera í fjarvinnu heldur frekar tækifæri sem liggur í því.“

Magnús kveðst vera mikið náttúrubarn, gangi á fjöll og veiði mikið. „Ég geng til rjúpna, veiði hreindýr, gæs og lax. Síðan á ég þrjá stráka sem eru allir í fótbolta og það hefur farið mikill tími í kringum fótboltann hér fyrir austan.“ Hann bætir við að hann fari að smala á haustin. „Síðan höfum við konan mín síðustu árin reynt að vera dugleg að ferðast.“

Spurður hvað hann hafi gert í sumar segir hann að það hafi farið mikill tími í vinnuna þótt hann hafi vissulega líka ferðast eitthvað. „Við fjölskyldan fórum hringinn í kringum landið, síðan var ég líka á þessu fræga Rey Cup móti sem var nú eftirminnilegt. Síðan fór ég að veiða hreindýr í síðustu viku og það var afar gaman. Fjölskyldan á líka bókaða utanlandsferð nú í haust sem verður væntanlega slegin af.“

Magnús er giftur Herborgu Eydísi Eyþórsdóttur, starfsmanni Arion banka, og eiga þau þrjá stráka.