„Mér líst mjög vel á þetta. Það hefur blundað lengi í mér að starfa í fasteignageiranum, og nú fæ ég tækifæri til þess,“ segir Óðinn Árnason, sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Festi fasteigna, fasteignafélags Festi.
Óðinn hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2007. Hann segir tíma sinn á fjármálamarkaði hjálpa honum að sjá sjónarhól fjárfesta á markaðnum. Talsverður munur sé á fyrri störfum og starfinu hjá Festi fasteignum. „Eignaflokkarnir eru auðvitað í eðli sínu mjög ólíkir. Þar fyrir utan er hraðinn á verkefnum og ákvarðantökum allt annar. Á fjármálamarkaði er meiri þörf á því að maður sé alltaf á tánum og á vaktinni. Hér fæ ég aðeins meira rými til að setja mig inn í verkefnin og ákvörðunarferillinn er lengri.“
Óðinn segir mikil tækifæri felast í verðmætu og stóru eignasafni félagsins. „Þetta er mjög stórt safn af fasteignum og lóðum. Stærsta verkefnið framundan er að skoða leiðir til að auka verðmæti eignasafnsins. Nú liggur til dæmis fyrir að það er verið að breyta staðsetningunum út frá borgar- og bæjarskipulagi, það er verið að þétta byggðir og íbúðabyggðir eru mikið að koma í stað bensínstöðva."
Óðinn á tvö börn, Hjörtfríði 16 ára og Árna Jakob 11 ára, með konu sinni Ernu Rún Magnúsdóttur, en þau hafa búið í Grindavík síðastliðin sex ár. Óðinn er mikill áhugamaður um fótbolta og körfubolta. Hann á meira en tvö hundruð leiki að baki í meistaraflokki í fótbolta, þar af 108 leiki í efstu deild. Mest lék hann með Þór á Akureyri, þar sem hann ólst upp, og síðar með Grindavík. „Ég fór að spila fótbolta með Grindavík árið 2003 og kynnist konuninni minni þar. Hún og börnin hafa náð að smita mig af körfuboltabakteríunni, og ég hef fylgt krökkunum eftir í báðum íþróttum.“
Óðinn hefur verið mikill skíðagarpur frá blautu barnsbeini. „Ég var látinn standa á skíðum um það leyti sem ég fór að labba og skíðin eru dálítið í blóði borin. Pabbi var mikið á skíðum og keppti m.a. á Ólympíuleikunum í Innsbruck 1976.“
Nánar er rætt við Óðinn í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.