Ný stjórn hefur verið skipuð hjá nýsköpunarfyrirtækinu Taktikal. Nýja stjórn skipa þau Íris Arna Jóhannsdóttir, Sigurður Orri Guðmundsson stjórnarformaður og Soffía Theódóra Tryggvadóttir.

Í tilkynningu segir að nýrri stjórn sé ætlað að styðja við sókn Taktikal á erlenda markaði.

Taktikal lauk fyrr á árinu 260 milljón króna fjármögnun frá vísisjóðnum Brunni vaxtarsjóði II til vöruþróunar og sóknar á erlenda markaði.

Íris Arna Jóhannsdóttir starfar sem forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu Kviku og Director of Operations hjá Kvika Securities, dótturfélagi bankans í London.

Íris Arna er er með cand. jur. gráðu frá Háskóla Íslands og LL.M. í banka- og fjármálalögfræði frá London School of Economics and Political Science. Þá er hún héraðsdómslögmaður og löggiltur verðbréfamiðlari á Íslandi.

Íris Arna var yfirlögfræðingur Virðingar hf. frá árinu 2016 og fram að samruna Virðingar og Kviku árið 2017, þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra Virðingar í samrunaferlinu. Á árunum 2012-2015 var hún yfirlögfræðingur H.F. Verðbréfa og þar á undan verkefnastjóri hjá LOGOS lögmannsþjónustu frá árinu 2007. Íris Arna hefur einnig starfað á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins og í Frjálsa fjárfestingarbankanum.

Sigurður Orri hefur átt farsælan starfsferil í sölu á B2B SaaS skýjalausnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Sigurður Orri starfaði áður sem yfirmaður sölumála (CCO) hjá Siteimprove, einu stærsta SaaS fyrirtæki Danmerkur, og leiddi þar sölu á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

Þá starfaði Sigurður einnig sem CCO hjá Airtame þar sem hann bar ábyrgð á sölu, þjónustu og markaðssetningu félagsins á alþjóðavísu. Sigurður Orri er í dag framkvæmdastjóri hjá NeckCare, íslensku nýsköpunarfyrirtæki, en sinnti áður stjórnarstörfum fyrir félagið.

Soffía Theódóra Tryggvadóttir starfar sem fjárfestingastjóri hjá vísisjóðnum Brunni Ventures og situr í stjórn nokkurra sprotafyrirtækja sem Brunnur Ventures fjárfestir í. Soffía býr yfir mikilli reynslu af alþjóðlegum störfum í nýsköpun, viðskiptaþróun og markaðssetningu.

Soffía kemur til Brunns í ár frá bandaríska Fortune 500 fyrirtækinu NetApp. Þar leiddi hún fyrst markaðsetningu félagsins á skýjalausnum þess og bar síðar ábyrgð á uppbyggingu vörumerkisins á heimsvísu. NetApp keypti Greenqloud á Íslandi þar sem Soffía starfaði sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, markaðsmála og lögfræðideildar.

Soffía er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla.

Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal:

„Það er gríðarlega mikill fengur fyrir okkur hjá Taktikal að fá inn nýtt fólk í stjórn Taktikal með mikla reynslu sem styður við vöxt félagsins. Þekking nýrra stjórnarmanna mun styðja við á sölu Taktikal á SaaS skýjalausnum og þjónustu við viðskiptavini, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er mér sönn ánægja að bjóða nýja stjórn velkomna til starfa.”