Ragnheiður Hauksdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs hjá Keahótelum. Hún mun sjá um rekstur skrifstofu Keahótela í Reykjavík og ber ábyrgð á sölu, markaðssetningu, tekjustýringu og innleiðingu nýrra tæknilausna fyrir hótelkeðjuna.

Ragnheiður starfaði sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Isavia síðustu tvö árin og gegndi stöðu framkvæmdastjóra einstaklingssviðs hjá Sýn þar á undan.

Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og Copenhagen Business School þar sem sérsvið hennar var markaðsfræði og alþjóðaviðskipti.

Keahótel er ein stærsta hótelkeðja landsins sem rekur níu hótel. Í Reykjavík eru hótelin sex talsins; Hótel Borg , Apótek, Sand, Skuggi, Storm og Reykjavík Lights. Þá rekur keðjan Hótel Kea á Akureyri, Sigló Hótel á Siglufirði og Hótel Kötlu í Vík.