Norðurál hefur ráðið nýja starfsmenn í þrjár stöður hjá fyrirtækinu. Það eru þau Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson framkvæmdastjóri öryggis-, umhverfis- og umbótasviðs, Hólmfríður Kristjánsdóttir lögmaður og Sigríður Harðardóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs.

Guðlaugur er menntaður efnaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með MSc gráðu í efnaverkfræði frá ETH í Zürich. Hann hefur unnið hjá Norðuráli frá árinu 2019, bæði á rannsóknarstofu fyrirtækisins og sem sérfræðingur í umhverfismálum. Þá hefur hann einnig sinnt rannsóknarstafi við ETH háskólann í kjölfar lokaverkefnis hans við skólann en þar fjallaði um kolefnisföngun við álframleiðslu.

Hólmfríður mun starfa bæði fyrir Norðurál ehf. og móðurfélag þess, Century Aluminum. Hún kemur til með að sinna samningamálum og almennum lögfræðistörfum auk þess sem hún hefur tekið sæti í stjórn Norðuráls sem og tveimur dótturfélögum þess.

Hólmfríður starfaði síðast sem framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækis en þar áður hafði hún starfað sem áhættustjóri lífeyrissjóða í rekstri hjá Landsbankanum og sem lögmaður hjá Rauða krossinum, Juris lögmannsstofu og endurskoðendafyrirtækinu Deloitte. Hún er cand.jur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Sigríður er með B.Ed próf í kennsluvísindum og meistarapróf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hún hefur víðtæka reynslu af mannauðs- og breytingarstjórnun sem og rekstri. Sigríður kemur til Norðuráls frá Strætó bs. þar sem hún hefur verið sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs frá árinu 2014.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá þau Guðlaug Bjarka, Hólmfríði og Sigríði til liðs við okkur. Þau búa yfir mikilli og ólíkri þekkingu. Norðurál er einn stærsti vinnustaður landsins og með ráðningum þeirra viðhöldum við þeirri breidd og fagþekkingu sem við viljum að fyrirtækið búi yfir,“ segir Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga.