Ólafur Kári Júlíusson hefur tekið við sem mannauðsstjóri hátæknifyrirtækisins DTE. Hann hefur unnið hjá fyrirtækinu síðan í árslok 2022 sem sérfræðingur í mannauðsmálum en hefur nú tekið við keflinu af Ágústu Sigrúnu Ágústsdóttur sem hefur starfað sem mannauðsstjóri DTE síðan 2021.
Ágústa mun halda áfram að vinna að verkefnum fyrir DTE og veita ráðgjöf og stuðning í mannauðsmálum.
Ólafur er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í vinnusálfræði frá Sheffield-háskóla í Bretlandi. Hann hefur áralanga reynslu í mannauðsmálum en Ólafur kom til DTE frá Orku Náttúrunnar þar sem hann starfaði sem mannauðsleiðtogi. Fyrir það var hann í mannauðsmálum hjá Landsneti og LS Retail.
„Við erum gríðarlega ánægð með að Óli hafi tekið við keflinu og hann mun styðja við öran vöxt DTE og efla menningu okkar enn frekar. Við erum í miklum vexti og höfum verið að bæta við frábæran hóp DTE undanfarið og Óli hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri vegferð og unnið þétt með starfsfólkinu okkar að því að efla okkar góðu menningu enn frekar, því er mikill fengur í að fá hann til að leiða þá mikilvægu vinnu,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE.