Ragna Björg Ársælsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar (COO) hjá Imperio ehf. Um er að ræða nýja stöðu hjá ráðgjafarfyrirtækinu Imperio IT Sourcing.

Fyrirtækið sérhæfir sig í upplýsingatækni og er með starfstöðvar á Íslandi og Noregi.

Ragna mun sinna daglegum rekstri, áætlanagerð, markaðsmálum og stjórnun alþjóðlegra verkefna. Hún mun þannig styrkja alhliða þjónustu milli samstarfsaðila frá sprotafyrirtækjum til innlendra eða erlendra stofnana og fyrirtækja.

Síðustu ár hefur Ragna Björg starfað hjá lækningavörufyrirtækinu Kerecis og þar síðast sem forstöðumaður alþjóðlegrar vörustýringar. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt með MPM-gráðu í verkefnastjórnun.