Íslenska ferðatæknifyrirtækið PaxFlow hefur ráðið Sigurjón Viðvar Svavarsson sem tæknistjóra (CTO). Sigurjón mun leiða hugbúnaðarþróun PaxFlow og jafnframt verða hluti af eigendahópi PaxFlow.

Sigurjón kemur til PaxFlow frá Pollard Digital Solutions Europe, áður Novomatic Lottery Solutions, þar sem hann hefur starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur frá 2015. Þar áður starfaði hann hjá TM Software þar sem hann þróaði lausnir fyrir Icelandair og Sabre Airline Solutions. Sigurjón er með B.Sc. gráðu í hugbúnaðarþróun frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það er mikill fengur fyrir PaxFlow að fá Sigurjón til liðs við teymið. Reynsla Sigurjóns mun styrkja PaxFlow í sinni vegferð. Hann kemur með verðmæta þekkingu á öllum sviðum hugbúnaðarþróunar inn í teymið til að leiða það áfram til árangurs,“ segir Soffía Kristín Þórðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri PaxFlow.

PaxFlow þróar samnefndan hugbúnað fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á dagsferðir, afþreyingu og upplifanir. Hugbúnaðurinn er notaður til að halda utan um daglegan rekstur og innri verkferla með áherslu á sjálfvirknivæðingu og sjálfsafgreiðslu ferðafólks.