Sólveig Kr. Bergmann og Steinunn Dögg Steinsen hafa tekið við nýjum hlutverkum hjá Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls. Bætast þær í þann hóp Íslendinga sem þegar starfa í æðstu stjórn Century, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Sólveig Kr. Bergmann, sem gegnt hefur stöðu yfirmanns samskipta hjá Norðuráli, hefur tekið við nýju hlutverki hjá Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls. Nýr starfstitill Sólveig er Corporate Director of Communications and Public Relations.

Áður en Sólveig hóf störf hjá Norðuráli árið 2012 starfaði hún sem fréttastjóri, fréttamaður og blaðamaður á fjölda íslenskra fjölmiðla, Sólveig er með BA gáðu í mannfræði og alþjóðafræðum frá Macalester College í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Sólveig er í stjórn Samáls og Grænvangs.

Steinunn Dögg Steinsen, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra umhverfis- og öryggissviðs Norðuráls frá árinu 2018, hefur tekið við nýju hlutverki hjá Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls. Steinunn mun framvegis stjórna og bera ábyrgð á umhverfis- og öryggismálum allra álvera Century, í Bandaríkjunum og hér heima. Nýr starfstitill hennar er Vice President of HSE, Sustainability and Management Systems.

Steinunn hóf störf hjá Norðuráli árið 2011. Steinunn er með M.Sc. í efnaverkfræði frá Denmarks Tekniske Universitet og lauk diplómanámi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands árið 2010.

Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Century Aluminum og forstjóri Norðuráls:

„Það er mikið gleðiefni að fá þær Sólveigu og Steinunni til starfa í móðurfélaginu með mér. Steinunn mun stýra umhverfis- og öryggismálum í allri starfsemi Century á heimsvísu og vinna að því að tryggja að farið sé að öllum reglum á þessu sviði, auk þess að hafa umsjón með stefnu og stöðlum fyrirtækisins. Hún mun einnig bera ábyrgð á mótun, þróun, innleiðingu og endurbótum á umhverfis- og öryggisstefnu Century.

Sólveig verður yfirmaður allra samskipta samstæðunnar og stýrir stefnumótun á því sviði og mun halda áfram að stýra vörumerkjaþróun á vörum Century, útgáfum og birtingum, sem og ytri samskiptum Norðuráls á Íslandi.“