Tryggvi Gunnarsson, Rakel Mist Einarsdóttir og Kristján Valur Gíslason hafa verið ráðin til starfa hjá auglýsingastofunni Hér & Nú.

Tryggvi mun gegna stöðu texta- og hugmyndasmiðs en hann á að baki farsælan feril sem blaðamaður, leikskáld og leikstjóri á Íslandi og í Noregi. Samfara skapandi skrifum var hann meðlimur í hönnunarteyminu Reykjavík Design Lab sem meðal annars hefur unnið til fjölda FÍT verðlauna og hlotið viðurkenningu ADC*E.

Rakel Mist, birtingaráðgjafi, var áður fyrirtækjaráðgjafi hjá Símanum og síðar birtingastjóri Sjónvarps Símans. Hún er með gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Kristján Valur tekur við stöðu fjármálastjóra en hann er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í fjármálum frá EADA viðskiptaháskólanum í Barselóna. Hann hefur starfað við uppgjör og rekstrarráðgjöf frá árinu 2011 fyrir fyrirtæki af öllum stærðum ásamt því að hafa tekið að sér stjórnunarstöður í stærri félögum.

Þá hefur hann starfað í fyrirtækjaráðgjöf PwC þar sem helstu verkefni voru áreiðanleikakannanir tengdar kaupum og sölum fyrirtækja ásamt greiningum og verðmötum. Síðustu ár hefur hann verið í eigin ráðgjafastarfsemi ásamt því að hafa rekið eigið fyrirtæki í ferðaþjónustu ásamt eiginkonu sinni til fjölda ára, Steinunni Reynisdóttur.

„Það er frábært að fá allt þetta nýja toppfólk til okkar sem styrkja mun stofuna enn frekar, birtingadeildin okkar fer stækkandi og með nýju starfsfólki þar hafa opnast ný tækifæri,” segir Högni Valur Högnason, framkvæmdastjóri hönnunar- og hugmynda á Hér&Nú.