Steinunn Þórðardóttir, sérfræðingur í öldrunar- og lyflækningum, tekur við nýrri stöðu framkvæmdastjóra lækninga hjá Hrafnistu þann 1. nóvember næstkomandi. Undanfarin fimm ár hefur hún gegnt stöðu yfirlæknis heilabilunareiningar Landspítala.

Í tilkynningu segir að Steinunn komi með dýrmæta viðbótarþekkingu til Hrafnistu og muni koma að því að efla frekar þá þjónustu sem veitt er íbúum og öðrum þjónustuþegum. Sem framkvæmdastjóri lækninga mun Steinunn eiga sæti í framkvæmdaráði Hrafnistu.

„Við erum sannfærð um að þessi spennandi nýjung í stjórnendahópi Hrafnistu muni efla enn frekar þá faglegu og öflugu þjónustu sem Hrafnistuheimilin veita nú þegar og gera þeim enn betur kleift að viðhalda því markmiði að vera ávallt leiðandi í þjónustu við aldraða hér á landi,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.

Steinunn hefur undanfarin ár verið formaður Læknafélags Íslands en hún mun áfram sinna því starfi samhliða starfi sínu hjá Hrafnistu.