Kári S. Friðriksson gekk á dögunum til liðs við greiningardeild Arion banka eftir að hafa verið hagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í gegnum heimsfaraldurinn.
„Þetta er að vísu í annað skiptið sem ég ræð mig í greiningardeild Arion banka,“ útskýrir Kári fremur kíminn. „Ég var fyrst ráðinn þangað í seinni hluta september 2008 með skóla en ég staldraði reyndar ekkert rosalega lengi við í það skiptið. Ég held að vinnudagarnir hafi verið þrír,“ en á þriðja degi horfði Kári á Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra flytja „Guð blessi Ísland“-ræðuna svokölluðu í upphafi hrunsins með nýju vinnufélögunum.
Kári vann meðal annars unnið með Gunnari Haraldssyni hagfræðingi hjá þá nýstofnuðu ráðgjafarfyrirtæki hans, Intellecon. „Ég kem með honum inn í það ævintýri og er þar nokkuð sjálfstætt starfandi, en þó í miklu samstarfi við hann.“
Eftir dágóðan tíma á þeim vettvangi færði Kári sig loks um set á ný þegar hann fór til HMS haustið 2019, aðeins nokkrum mánuðum áður en heimsfaraldurinn skall á og fasteignamarkaðurinn tókst á loft.
„Það var aldrei lognmolla. Þetta var ótrúlega áhugaverður tími, og ég held bara sá besti sem hægt er að hugsa sér til að vera að skoða þennan markað alla daga. Það var svo margt að gerast í þjóðfélaginu sem síðan endurspeglaðist á fasteignamarkaðnum.“
Nánar er rætt við Kára í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.