N1 og Þor­grímur Þráins­son hafa undir­ritað samning um á­fram­haldandi sam­starf fyrir­tækisins og fyrir­lesarans. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá N1.

„Þor­grímur hefur undan­farin ár flutt fyrir­lesturinn Verum ást­fangin af lífinu, í boði N1, fyrir alla 10. bekki á Ís­landi, skólunum að kostnaðar­lausu. Skólarnir eru vel á annað hundrað og fjöldi nem­enda hleypur á þúsundum. Fyrir­lestrar Þor­gríms hafa verið vel sóttir en undan­farin 5 ár hafa 99% skóla þegið boð Þor­gríms um fyrir­lestur,“ segir í til­kynningu.

Fyrir­lestur Þorgríms, sem er lið­lega 80 mínútur að lengd, saman­stendur af um 60 glærum og mynd­böndum. Í tilkynningu segir að um hvatningar­fyrir­lestur sé að ræða þar sem fjallað er um mark­miða­setningu, sam­kennd, vin­áttu, traust, kær­leika, liðs­heild og mikil­vægi þess að nem­endur beri á­byrgð á sjálfum sér og sýni öllum virðingu. Þ

Þor­grímur gaf út bókina Verum ást­fangin af lífinu í nóvember 2021 en hún hefur að geyma það sem Þor­grímur hefur borið á borð fyrir nem­endur í rúman ára­tug, í boði N1.

Ný­undir­ritaður samningur Þor­gríms og N1 gildir fyrir til loka skóla­ársins 2023-2024. Stuðningur N1 er í sam­ræmi við stefnu fé­lagsins um sam­fé­lags­lega á­byrgð og stuðning við yngri kyn­slóðir landsins, ekki síst í í­þrótta- og æsku­lýðs­starfi.

„Það eru for­réttindi fyrir mig að fá að blása ungu fólki anda í brjóst á hverjum degi og stuðningur N1, og annarra fyrir­tækja, ó­metan­legur á þeirri veg­ferð. Sam­fé­lags­leg á­byrgð skiptir máli og við eigum öll að hjálpast að við að styðja unga fólkið. Skóla­sam­fé­lagið kann vel að meta boð­skapinn í Verum ást­fangin af lífinu ég mun halda mínu striki á meðan ást­ríðan er til staðar,“ segir Þor­grímur Þráins­son í frétta­til­kynningu.

Þyrí Dröfn Kon­ráðs­dóttir, for­stöðu­kona markaðs­sviðs N1, segir í til­kynningu að sam­starf N1 og Þor­gríms hafi gengið vel á undan­förnum árum en N1 hefur styrkt verk­efnið frá árinu 2015. Brim og Bláa lónið styrkja verk­efnið sömu­leiðis.

„Fyrir­lestur Þor­gríms hefur slegið í gegn og það er á­nægju­legt að hann muni á­fram fá að heyrast í grunn­skólum landsins. Við hjá N1 teljum mikil­vægt að hlúa vel að unga fólkinu okkar og senda það með gott vega­nesti út í lífið. Stuðningur við Verum ást­fangin af lífinu sam­ræmist þeirra sýn okkar full­kom­lega.“