Björgheiður Margrét Helgadóttir, Hjördís Sveinsdóttir og Sveinn Þráinn Guðmundsson hafa verið ráðin í sjálfbærniráðgjöf EY. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sjálfbærniráðgjöf EY býður upp á þjónustu við fyrirtæki og stofnanir sem eru á sjálfbærnivegferð, hvar sem þau eru stödd í vegferðinni.

Björgheiður Margrét Helgadóttir er með M.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands.

Hún hefur unnið fjölbreytt störf í tækni og iðnaði en hún starfaði áður sem verkefnastjóri í verkfræðideild Alvotech og sem sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Innnes. Björgheiður hefur mikla reynslu á sviði jafnréttismála þar sem hún sat í stjórn Ungra athafnakvenna (UAK) og mun leggja áherslu á félagslega hluta sjálfbærni svo sem mannréttindi og jafnrétti.

Hjördís Sveinsdóttir er með B.Sc. í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík og viðbótardiplómu í Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Hún starfaði áður hjá Umhverfisstofnun við innleiðingu Grænna skrefa hjá ríkisstofnunum. Hjördís mun leggja áherslu á verkefni tengd samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfinu og stefnumótun.

Sveinn Þráinn Guðmundsson er með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hann kemur til EY beint úr námi en hefur sinnt fjölbreyttum störfum í gegnum tíðina. Sveinn mun sérhæfa sig í grænum fjármálum og innleiðingu flokkunarkerfis fyrir sjálfbærar fjárfestingar ESB (e. EU Taxonomy).

Dr. Snjólaug Ólafsdóttir stýrir Sjálfbærniráðgjöf EY en hún er mörgum kunn sem hafa fylgst með sjálfbærnimálum á Íslandi síðustu ár. Snjólaug hefur viðamikla reynslu af því að aðstoða fyrirtæki og stofnanir í loftslags- og sjálfbærnimálum.

Sjálfbærniráðgjöf EY stendur, ásamt Samtökum Atvinnulífsins, fyrir Sjálfbærnidegi Atvinnulífsins sem fer fram í dag.