Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, hefur fengið þrjá nýja starfsmenn til liðs við sjóðinn á þremur mismunandi sviðum. Edda Björk Agnarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings í áhættustýringu, Sigurður Möller tekur við nýrri stöðu sérfræðings í gagnamálum á sviðinu stafræn þróun og rekstur og Karen Ýr Lárusdóttir er nýr sérfræðingur á lífeyrissviði. Þau hafa öll hafið störf hjá sjóðnum.

Edda Björk Agnarsdóttir hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2002. Hún kemur til LSR frá Íslandssjóðum, þar sem hún var forstöðumaður áhættustýringar og innra eftirlits frá 2017 eftir að hafa starfað þar sem sérfræðingur í áhættustýringu frá 2009. Þar áður starfaði hún m.a. hjá Straumi fjárfestingarbanka, JP Morgan Asset Management í London og bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu PIMCO í München.

Edda Björk er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Meginverkefni hennar hjá LSR verða áhættugreiningar og eftirlit með helstu áhættuþáttum í starfsemi sjóðsins.

Sigurður Möller mun leiða uppbyggingu gagnagrunna og gagnavöruhúsa „sem verða mikilvægur liður í stafrænni uppbyggingu LSR á næstu árum“. Hann kemur úr starfi sérfræðings í viðskiptagreind og opinberum fjármálum hjá Vegagerðinni en áður starfaði hann hjá KPMG við gerð fjárhagslegra áreiðanleikakannana. Sigurður er með MSc-gráðu í fjármálaverkfræði og BSc-gráðu í rekstrarverkfræði frá HR.

Karen Ýr Lárusdóttir bætist í hóp sérfræðinga á lífeyrissviði sem eru sjóðfélögum innan handar við ráðgjöf og úrvinnslu umsókna. Karen Ýr var áður aðfangakeðjustjóri hjá Medis þar sem hún starfaði frá 2018 eftir tveggja ára dvöl í Danmörku. Þar áður hafði Karen Ýr starfað í rekstrardeild Íslandsbanka frá því að hún lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 2013.