SIV eignastýring, dótturfélag VÍS, hefur ráðið til sín tvo starfsmenn, þau Guðrúnu Unu Valsdóttur og Jón Rúnar Ingimarsson, sem hefja bæði störf í desember. Starfsmenn eignastýringafélagsins - sem hlaut starfsleyfi sérhæfðra sjóða í júní sl. o er með um 60 milljarða króna í stýringu - eru nú orðnir sjö talsins.

Guðrún Una Valsdóttir hefur verið ráðin sem sjóðstjóri í skuldabréfateymi félagsins en hún hefur yfir tuttugu ára reynslu í eignastýringu. Hún starfaði síðast sem sjóðstjóri hjá Glym, dótturfélagi Fossa fjárfestingarbanka, en áður starfaði hún hjá Landsbréfum/Landsbankanum. Þar stýrði hún skuldabréfateymi rekstrarfélags bankans, starfaði sem verðbréfamiðlari og var fjárfestingarstjóri í eignastýringarteymi bankans sem m.a. stýrir Íslenska lífeyrissjóðnum.

Una nam viðskiptafræði við Háskóla Íslands, lauk þaðan meistaragráðu í fjármálum (M.Sc.) árið 2002 og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Þá er Una einnig með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið framhaldsnámi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Jón Rúnar Ingimarsson hefur verið ráðinn sem sjóðstjóri hlutabréfa en hann starfaði áður sem sjóðstjóri erlendra hlutabréfa hjá Stefni hf. og í markaðsviðskiptum hjá Kviku og Landsbankanum.

Jón Rúnar lauk meistaragráðu í fjármálum (M.Sc.) frá Esade viðskiptaháskólanum í Barcelona á Spáni árið 2021. Hann lauk jafnframt B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016. Jón Rúnar hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir almenna fjárfesta og fagfjárfesta auk eignastýringar hjá SIV eignastýringu. Ég fagna komu Unu og Jóns Rúnars til okkar, en ég tel að reynsla þeirra og menntun eigi eftir að styrkja félagið enn frekar til framtíðar. Ég býð þau hjartanlega velkomin til okkar,“ segir Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar.