Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Glaze hefur ráðið Úlf Regin Úlfarsson í stöðu sölustjóra og mun hann leiða sölustarf félagsins á Íslandi sem og erlendis.
Glaze er afgreiðslulausn fyrir upplifunarfyrirtæki, tónleikastaði, bari, kaffihús, ferðaþjónustu og gistingu.
„Við erum mjög spennt að fá Úlf af krafti inn í teymið okkar en við miðum að miklum vexti næstu misseri. Það er komin góð reynsla á Glaze hjá viðskiptavinum okkar og við erum sífellt að bæta við framboð okkar, núna nýlegast með rafrænum gjafakortum,” segir Arnþór Ingi Hinriksson, framkvæmdastjóri Glaze.
Úlfur er með BS gráðu í alþjóðaviðskiptum og ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Síðastliðin ár hefur Úlfur stýrt sölustarfi ráðstefnu- og hvataferða hjá Iceland Hotel Collection by Berjaya og var auk þess sölustjóri hjá Dream Broker.