Talsverð vinna liggur að baki auglýsingum og herferðum og huga þarf að ýmsum hlutum að sögn Kára Sævarssonar, stofnanda vörumerkjastofunnar Tvist. Upphafið að góðu verkefni felst í því að viðskiptavinurinn kemur með vandamál sem þarf að leysa og kostnaðarramma.

„Það er yfirleitt fleiri en ein rétt lausn á hverju verkefni. Oft á tíðum snýst þetta um að para saman ákveðna lausn við verkefni sem gengur upp miðað við heildarstefnu vörumerkisins, miðað við kostnaðarramma, miðað við líftíma efnisins og svo framvegis.“

Ein helstu mistökin sem fyrirtæki eða félög geri sé að leyfa ekki verkefnum að lifa nógu lengi.

„Það eru mögulega settar í loftið virkilega vel heppnaðar auglýsingaherferðir en þær endast ekki mánuð í birtingum. Það þarf yfirleitt lengri tíma til að ná í gegn, sérstaklega ef það er verið að reyna að breyta hegðun eða viðhorfum. Það má ekki vanmeta það að dropinn holar oft steininn á endanum en til þess að dropinn nái að hola steininn þá verður hann að fá að drjúpa dálítið oft,“ segir Kári en þegar kemur til dæmis að stórum herferðum þurfi viðskiptavinir strax í upphafi að huga að fjármagni fyrir birtingar og annað næstu árin.

Einnig eigi fyrirtæki og stofnanir það til að ofmeta ferskleikann og vanmeta endurtekninguna.

„Við sjáum stundum að mikil áhersla er lögð á það sem er nýtt og ferskt en það er minni áhersla lögð á það sem er kunnuglegt og stöðugt. Við reynum að gæta þess í okkar störfum að það sé ekki verið að henda einhverjum verðmætum út um gluggann með því að breyta of hratt. Þetta á til dæmis við um útlit eða inntak vörumerkja. Í þeim tilvikum er hætta á að fólk þurfi að eyða orku í að kynnast vörumerkjum upp á nýtt,“ segir Kári en í keyrslusamfélagi séu orka fólks og athygli ekki beint á lausu.

„Eitt sem við höfum farið að trúa meira og meira á í seinni tíð er að auglýsingar og markaðsefni hafi áhrif með því að sýna orkustig fyrirtækja og vörumerkja. Ef við tökum líkingu úr arkítektúr þá segjum við stundum að það getur verið gott að vera með sama litinn frá ári til árs en það þarf helst alltaf að vera nýmálað. Það þarf að sjást í markaðsefni og öðru að það er líf í fyrirtækinu og það ríkir metnaður.“

Nánar er rætt við Kára í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.