Sports Direct á Íslandi hagnaðist um 156 milljónir króna á síðasta reikningsári félagsins sem endaði í apríl á síðasta ári.

Hagnaðurinn var nokkuð svipaður frá árinu áður en þá var hann um 154 milljónir króna.

Velta félagsins lækkaði þó um 7,7% á tímabilinu og nam 747 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 559 milljónum króna en þar af var kostnaðarverð seldra vara um 283 milljónir króna. Laun og tengd gjöld námu í kringum 144 milljónum króna og lækkuðu um 27 milljónir króna á tímabilinu.

Eignir félagsins námu um 656 milljónum króna og þar af var eigið fé um 238 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var 36% og lækkað nokkuð frá fyrra tímabili þegar að hlutfallið var í kringum 62%. Ástæðan fyrir lækkuninni á milli ára er breyting á óráðstöfuðu eigin fé og 313% aukning í viðskiptaskuldum en þær námu 326 milljónum í lok árs.

Félagið er að fullu í eigu Sportsdirect.com Retail (Europe) S.A., dótturfyrirtækis breska Sports Direct.