Félagsbústaðir högnuðust um 17,5 milljarða króna á fyrri helmingi árs en hagnaðurinn var allur tilkominn vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins. Matsbreyting fjárfestingareigna nam alls 19,5 milljörðum króna og var því 2 milljarða tap á rekstri félagsins fyrir matsbreytingu. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Rekstrartekjur tímabilsins námu 2,8 milljörðum króna og jukust um rúmlega 253 milljónir króna frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu 1,5 milljörðum króna og jukust um 266 milljónir milli ára.

Eignir Félagsbústaða námu 148 milljörðum króna í lok fyrri helming árs, samanborið við 126 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Skuldir námu 55 milljörðum króna og jukust um rúmlega 2 milljarða milli ára. Eigið fé nam 85 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var því 57,4% í lok tímabilsins.

Handbært fé frá rekstri var 539 milljónir króna, samanborið við 566 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Afborganir lána á tímabilinu námu 632 milljónum króna.

Félagsbústaðir keyptu 41 fasteign og seldu 1 fasteign á fyrstu 6 mánuðum ársins 2022 en áform voru um að fjölga leigueiningum um 42 á tímabilinu.

Bókhaldsvilla?

Félagsbústaðir eru dótturfélag Reykjavíkurborgar. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun árs sendi ESA, eftirlitsstofnun EFTA, í tvígang innviðaráðuneytinu bréf þar sem óskað var eftir rökstuðningi á reikningsskilum Reykjavíkurborgar, sem kunna að vera í trássi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Hingað til hafa Félagsbústaðir metið fasteignir sínar á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Út frá þeirri skilgreiningu hefur félagið bókfært fasteignir sínar á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Ljóst er að ef félagið neyðist til að skipta um matsaðferð mun það hafa í för með sér að fjárhagur borgarinnar taki verulegum breytingum.

Ráðuneytið varði reikningsskil borgarinnar

Í maí greindi Viðskiptablaðið svo frá því að innviðaráðuneytið hafi skilaði inn svari við seinni fyrirspurn ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um reikningsskil Reykjavíkurborgar vegna matsaðferða Félagsbústaða á félagslegu húsnæði í lok apríl. Þar varði ráðuneytið reikningsskil borgarinnar en óskaði þó eftir að ræða málið nánar á næsta pakkafundi ESA.