Eggjahvíta ehf., fjárfestingarfélag laxeldismannsins Guðmundar Gíslasonar hagnaðist um 23,9 milljónir evra eftir skatt á síðasta ári, eða sem nemur 3,7 milljörðum króna. Félagið hafði nær eingöngu tekjur af sölu hlutabréfa en líkt og flestum er kunnugt hafa fjárfestar á hlutabréfamarkaði lifað eins og blóm í eggi frá miðju síðasta ári. Guðmundur er meðal stærstu hluthafa Ice Fish Farm líkt og faðir hans Guðmundur Gíslason sem lengst af var kenndur við bílaumboðið BL. Félagið var skráð á markað á síðasta ári en eignarhlutur félaga feðganna í Ice Fish Farm var bókfærður á kostnaðarvirði fram að skráningunni á markað.

Sjá einnig: Feðgar með 6,7 milljarða í eld

Gengismunur var jákvæður um sem nemur tæpum 80 milljónum króna en greidd vaxtagjöld og þóknanir námu 13,6 milljónum. Eignir félagsins námu tæpum 4 milljörðum í árslok en þar af voru um 3,7 milljarðar í eignarhlutum í félögum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 98% en félagið hefur engar langtímaskuldbindingar. Í lok árs 2019 námu eignir félagsins um 450 milljónum króna og þar af nam eigið fé 163 milljónum en það árið nam hagnaður félagsins 1,3 milljónum.

Fréttin hefur verið uppfærð.