Um 196 milljóna króna afgangur var af rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 921 milljónar halla á sama tímabili í fyrra. Borgin birti árshlutareikning í hádeginu.
Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem rekstrarniðurstaða A-hlutans er jákvæð á fyrri árshelmingi. Rekstrarniðurstaðan var engu að síður 1,7 milljörðum króna undir fjárhagsáætlun.
Um 196 milljóna króna afgangur var af rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 921 milljónar halla á sama tímabili í fyrra. Borgin birti árshlutareikning í hádeginu.
Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem rekstrarniðurstaða A-hlutans er jákvæð á fyrri árshelmingi. Rekstrarniðurstaðan var engu að síður 1,7 milljörðum króna undir fjárhagsáætlun.
Þá var rekstrarniðurstaða A- og B-hlutans jákvæð um 406 milljónir á fyrri árshelmingi samanborið við halla upp á 6,7 milljarða á fyrri árshelmingi 2023. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 3,6 milljarða afgangi af A- og B-hlutanum.
„Þessi niðurstaða sýnir að þær aðhaldsaðgerðir sem við höfum ráðist í eru að skila miklum árangri. Ný umgjörð um ráðningar virkar og fjöldi stöðugilda stendur í stað þrátt fyrir aukna þjónustu og fjölgun íbúa. Ég er þakklátur öflugri liðsheild starfsmanna borgarinnar sem vinnur samhent að því að snúa við rekstri borgarinnar,” segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri í tilkynningu á vef borgrinnar.
Milljarður aukalega vegna samkomulags um þjónustu við fatlaðra
Rekstrartekjur A-hluta borgarinnar – sem er sú starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum – námu 94,6 milljörðum króna sem samsvarar 8,6% aukningu milli ára. Rekstrargjöld jukust um 6,8% og námu 88,6 milljörðum á tímabilinu.
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir (EBITDA) batnaði og fór úr 4,1 milljarði í 5,9 milljarða milli ára.
Í tilkynningu borgarinnar er fjallað um áhrif annars áfanga samkomulags við ríkið um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sem tók gildi frá og með árinu 2024. Samkomulagið fól í sér tilfærslu skatttekna frá ríkinu til sveitarfélaga um 0,23% frá og með árinu 2024.
Reykjavíkurborg rekur tæplega milljarðs króna hækkun í staðgreiðsluútsvars milli ára til þeirrar breytingar.
Fyrsta samkomulagið um breytingu á fjármögnun þessarar þjónustu var gert í desember 2022 og fól í sér tilflutning skatttekna á 0,22% af útsvarsstofni frá og með árinu 2023. Sé horft til hækkunar útsvars frá upphafi árs 2023 hefur prósentuhækkun beggja ára skilað tæplega 2 milljörðum króna hærra útsvari fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
„Þrátt fyrir samkomulagið glíma sveitarfélög enn við mikla vanfjármögnun vegna málaflokks fatlaðs fólks og er það eitt af megináherslum Reykjavíkurborgar í gildandi fjármálastefnu að leiðrétta fjármögnun hans.“
Laun 790 milljónum yfir fjárheimildum
Laun og tengd gjöld hjá A-hluta Reykjavíkurborgar nam 50,8 milljörðum króna á fyrri árshelmingi og jókst um 5% frá sama tímabili í fyrra. Meðalfjölda stöðugilda stóð í stað milli ára og starfa nú 8.654 hjá Reykjavíkurborg.
Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að laun og launatengd gjöld hafi verið 790 milljónum yfir fjárheimildum á tímabilinu.
„Helstu frávik má rekja til afleysinga vegna veikinda og aukinnar mönnunar vegna stuðningsþarfa barna, einnig skýrast frávik af álagi í búsetukjörnum fatlaðs fólks.“
Þá var annar rekstrarkostnaður rúmlega 1.600 milljónum umfram fjárheimildir „en tekjur koma á móti hluta þessa kostnaðar“.
„Helstu frávik er meðal annars að finna í hráefniskostnaði mötuneyta á skóla- og frístundasviði sem var um 200 milljónum yfir fjárheimildum. Á velferðarsviði má rekja frávik meðal annars til vistgreiðslna vegna barna á vegum Barnaverndar Reykjavíkur sem voru 757 milljónum yfir fjárheimildum.“