Þorpið vistfélag er þessa dagana að afhenda 24 íbúðir félagsins í Gufunesi. Íbúðirnar eru byggðar í samstarfi við Reykjavíkurborg innan verkefnisins Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Íbúðir Þorpsins innan verkefnisins eru seldar á föstu verði sem tengt er við byggingavísitölu. Verð íbúðanna sem nú er verið að afhenda er þannig frá tæplega 22 milljónum króna fyrir stúdíóíbúð upp í 41,5 mkr. fyrir fjögurra herbergja íbúð. Ekki eru aðrar nýjar stúdíóíbúðir til sölu í Reykjavík í dag.

Ódýrustu íbúðirnar í Reykjavík í nýbyggingum eru nú auglýstar á 50 mkr. (2. herb.), 63 mkr. (3. herb.) og 76 mkr. (4. herb). Því er ljóst að það markmið Þorpsins að skila kaupendum sínum hagkvæmu húsnæði hefur gengið eftir og kaupverð íbúða félagsins langt undir markaðsvirði. Þær kvaðir eru á endursölu að fyrstu kaupendur hafa forgang að kaupum og söluverð miðast við kaupverð uppreiknað út frá verðþróun í Grafarvogi.

Íbúðir Þorpsins í Gufunesi eru fjöldaframleiddar úr steyptum einingum frá Steypustöðinni. Þær eru allar eins í grunninn sem skapar mikla hagkvæmni. Reykjavíkurborg seldi félaginu lóð á föstu verði sem félagið skuldbatt sig til að skila til kaupenda. Þá sér félagið sjálft um alla markaðssetningu og sölu íbúða. Allt ofangreint skapar hagkvæmni ásamt góðri og einfaldri hönnun Yrkis arkitekta. Þá er byggingatími einingahúsa styttri en hefðbundinna staðsteyptra húsa sem lágmarkar fjármagnskostnað. Það er gaman að geta þess að lóðin stendur við sjóinn og eru þetta einu fjölbýlishúsin í borginni með beint aðgengi að sjó, þar sem hvorki er hraðbraut eða varnagarður á milli.