Ársreikningur Akureyrarbæjar hefur verið samþykktur í bæjarráði og verður lagður fyrir bæjarstjórn í næstu viku.
Samkvæmt reikningnum var rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrri hluta ársins 2023 neikvæð um 1,2 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1,8 milljarðar króna á tímabilinu.
„Afkoma samstæðunnar fyrri hluta ársins var því nokkru betri en áætlun hafði gert ráð fyrir eða sem nemur 606 milljónum króna,“ segir í Kauphallartilkynningu.
Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrri hluta ársins var neikvæð um 1,113 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1,88 milljarðar. Afkoma A-hluta er því 752,2 milljónum króna betri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
Álagningarhlutfall útsvars í hámarki
Tekjur samstæðunnar voru samtals 16,2 milljarðar en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 15,2 milljörðum. Í Akureyrarbæ er álagningarhlutfall útsvars í 14,52% sem er lögbundið hámark.
Af tekjum bæjarins voru skatttekjur 8,4 milljarðar sem er 465 milljónum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Akureyri fékk 2,3 milljarða úr jöfnunarsjóði sem er 152 milljónum meira en bærinn bjóst við. Aðrar tekjur voru 5,5 milljarðar.
„Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 14.637 milljónir króna sem er 576 milljónum yfir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 9.043 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.979 milljónum. Annar rekstrarkostnaður var 4.912 milljónir króna sem er 526 milljónum yfir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, voru 1.693 milljónir króna sem er 52 milljónum undir áætlun. Afskriftir voru 1.107 milljónir samanborið við 1.205 milljónir í áætlun,“ segir í ársreikningi bæjarins.
Borguðu 701 milljónir af lánum sínum
Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 1,74 milljarðar eða 10,75% af tekjum.Fjárfestingahreyfingar voru 2,2 milljarðar en fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 141 milljón.
Bærinn borgaði 701 milljónir af lánum sínum og var handbært fé bæjarfélagsins 2,94 milljarðar króna í lok júní.
Fastafjármunir samstæðunnar voru 57 milljarðar króna og veltufjármunir 6,9 milljarðar.
Eignir Akureyrar eru verðmetnar á samtals 67,6 milljarða en eigið fé bæjarfélasgisin var 27 milljarðar sem er 1,2 milljörðum minna en um síðustu áramót.
Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 33,5 milljarðar en voru 32,5 milljarðar í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 6,9 milljarðar sem er hækkun úr 5,6 milljörðum um síðustu áramót.
Veltufjárhlutfall var 1,0 á móti 1,27 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 40,1% í lok júní.