HB Grandi hagnaðist um 3,9 milljónir evra, eða sem samsvarar 542 milljónum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er aukning um 666 þúsund evrur, eða tæplega 20,5% frá sama tíma fyrir ári. Fyrir tekjuskatt námu tekjurnar 5 milljónum evra.

Rekstrartekjur samstæðu HB Granda námu 58,0 milljónum evra, eða tæplega 8,1 milljarði íslenskra króna á tímabilinu miðað við gengi dagsins í dag, sem er aukning um 15,6% frá sama tíma fyrir ári þegar tekjurnar námu 50,2 milljónum evra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 9,7 m€ eða 16,7% af rekstrartekjum, en var 7,8 milljónir evra eða 15,5% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 700 þúsund evrur, en voru neikvæð um 1,3 milljónir evra á sama tíma árið áður.

Heildareignir félagsins námu 656,8 milljónum evra í lok mars 2019. Þar af voru fastafjármunir 554,5 milljónir evra og veltufjármunir 102,3 milljónir evra. Eigið fé nam 270,4 milljónum evra, eiginfjárhlutfall í lok mars var 41,2%, en var 41,9% í lok árs 2018. Heildarskuldir félagsins námu í marslok 386,4 milljónum evra.

Eignir upp á 90 milljarða króna

Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2019, þegar ein evra samsvaraði 137,12 krónum, verða eignir samtals 90,1 milljarðar króna, skuldir 53,0 milljarðar og eigið fé 37,1 milljarðar.

Handbært fé frá rekstri félagsins nam 22,2 milljónum evra á tímabilinu, en nam 9,9 milljónum evra á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 6,2 milljónir evra, en fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 22,3 milljónir evra.  Handbært fé hækkaði því um 6,1 milljónir evra á tímabilinu og var í lok mars 44,4 milljónir evra.

Í febrúar var Helgu Maríu lagt, og eru nú átta skip í flota samstæðunnar. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 var afli skipa félagsins 13,0 þúsund tonn af botnfiski og 14,8 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Guðmundur Kristjánsson , forstjóri HB Granda hf. segir það hafa verið áfall fyrir fyrirtækið að ekki skuli hafa verið heimilaðar loðnuveiðar í vetur, en félagið eigi samt að geta gert betur og að því verði stefnt. Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá fyrir rúmu ári síðan keypti hann um þriðjungshlut í HB Granda fyrir hátt í 22 milljarða króna af félögum tengdum Kristjáni Loftssyni.

„Afkoman á ársfjórðungnum var ekki viðunandi fyrir eins stórt félag og HB Granda. EBITDA hækkaði í 9,7 milljónir evra úr 7,8 milljónum fyrir sama tímabil í fyrra, sem er gott, en hafa þarf í huga að efnahagsreikningurinn er umtalsvert stærri núna en þá. Það skiptir miklu að hafa augastað á þeim fjármunum sem liggja undir við að búa til rekstrarhagnað.“