Áætlað er að flugiðnaðurinn á heimsvísu skili hagnaði upp á 36 milljarða dala árið 2025, sem er 600 milljónum dala minni hagnaður en í áætlun sem birtist í lok árs 2024. Tekjur flugfélaga á heimsvísu eru áætlaðar 979 milljarðar dala árið 2025 og hagnaðarhlutfall því 3,7%.
Samkvæmt Alþjóðasambandi flugfélaga hefur staðan versnað í byrjun árs en spenna á alþjóðlegum mörkuðum hafi haft áhrif auk þess sem neytendur haldi nú að sér höndum m.a. vegna verðlags en einnig vegna nýlegra fregna af slysum í flugi.
Willie Walsh, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands flugfélaga, segir í samtali við Bloomberg að hann sé engu að síður bjartsýnn en áskoranir sem iðnaðurinn glímir við að svo stöddu muni ekki hafa áhrif til lengri tíma og eftirspurn eftir flugi verði enn sterk. Hagnaðarhlutfall geirans væri þó enn arfaslakt en árið 2024 hafi það til að mynda numið 3,4%.