Staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar hefur verið endurmetin horfur í vatnsbúskapnum. Staðan er enn frekar léleg en vorleysing byrjaði seint á öllum vatnasviðum.

Staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar hefur verið endurmetin horfur í vatnsbúskapnum. Staðan er enn frekar léleg en vorleysing byrjaði seint á öllum vatnasviðum.

Léleg staða í miðlunarlónum síðastliðinn vetur gerði það að verkum að skerða þurfti afhendingu raforku til stórnotenda, þriðja árið í röð. Skerðingarnar voru síðan afnumdar í byrjun maí sl.

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun árs að samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins myndu skerðingar á raforku á fyrstu mánuðum þessa árs hafa í för með sér að útflutningstekjur Íslands verða ríflega 8-12 milljörðum króna lægri en ella.

Binda vonir við júlí

Samkvæmt tilkynningu frá Landsvirkjun hlýnaði og snjó leysti í byrjun maí og reyndist mánuðurinn gjöfull fyrir Blöndulón og Þórisvatn. Í Hálslóni fyrir austan náði leysingin að stöðva niðurdrátt og halda þannig í horfinu.

Aftur á móti hafi júní verið kaldur og þurr, sérstaklega eftir norðanhret í byrjun mánaðar. Þá hafi ekkert bæst við Blöndulón auk þess sem það hægði á fyllingu Þórisvatni.

Samfara hækkandi hitastigi fór að hækka í Hálslóni um miðjan júnímánuð en enn vantar um 15 metra upp á að vatnshæð nái meðalhæð í júlíbyrjun. Þó er tekið fram að Hálslón hafi alltaf fyllst og eru vonir bundnar við jökulleysingar í sumar.

„Þótt staðan sé þannig með lakara móti í lónunum núna er algengt að jökulbráð hefjist af krafti fyrri part júlímánaðar. Of snemmt er því að segja til um hver staðan verði í lónunum þegar nýtt vatnsár hefst þann 1. október. Jökulbráð hefur aukist undanfarin ár með hlýnandi loftslagi og haustlægðirnar hafa oft bætt töluverðu við,“ segir í tilkynningunni.