Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs eru útgjöld ríkissjóðs áætluð 1.478 milljarðar króna á árinu 2024. Hækkunin frá fjárlögum 2023 nemur 143,1 milljarði króna, eða 10,7%. Þar vega þyngst launa-, gengis- og verðlagsbreytingar, alls 67,9 milljarðar, en án þeirra nemur hækkunin milli ára 75,2 milljörðum, eða 5,6%.

Sé aðeins horft til rammasettra útgjalda nemur hækkunin 35,2 milljörðum króna, eða 3,2%. Stærsti hluti hækkunarinnar er tilkominn vegna aukinna útgjalda til heilbrigðismála, alls 14,3 ma.kr. Þar af fara 10,5 milljarðar í byggingu nýs Landspítala og 3,9 milljarðar í aukin framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga.

Þá verða útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingarmála aukin um 6,9 ma.kr. Þar af verða stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins aukin um 5,7 ma.kr. en ríkið hefur ákveðið að fjölga íbúðum í byggingu með ríkisstuðningi úr 500 í 1.000 á árunum 2024 og 2025.

Útgjöld til umhverfis- og orkumála verða aukin um 5,8 milljarða en stuðningur við orkuskiptin, sem hefur verið á tekjuhlið ríkissjóðs undanfarin ár í formi skattaundanþága, færist á gjaldahlið um áramótin.

Hækkun útgjalda á öðrum málefnasviðum nemur þá 8,6 ma.kr. en þar vegur þyngst 9,2 ma.kr. aukið framlag til almenns varasjóðs til að geta mætt ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Útgjöld vegna fjölgunar flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd þvert á málefnasvið hækka um sjö milljarða króna. Framlög til utanríkismála og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu lækka aftur á móti um 2,7 ma.kr.

Á móti hækkunum kemur að framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina verða lækkuð um 3,7 ma.kr. og má að stórum hluta rekja lækkunina til niðurfellingar á fjögurra milljarða framlagi til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar 2023.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins gerir ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs muni aukast frá fyrra ári. Aukningin verður þó minni en síðastliðin ár og munu tekjur ársins 2024 lækka lítillega sem hlutfall af VLF, verður 29,8% en eru áætlaðar 30,1% í lok þessa árs. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 1.349 ma.kr árið 2024, þar af eru skatttekjur og tryggingargjöld áætluð 1.201 ma.kr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.