Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur viðurkennt takmarkanir sjóðsins til að bregðast við loftslagsbreytingum og segir að aðrar stofnanir séu betur í stakk búnar að takast á við þau málefni.

Framkvæmdastjórinn segir að AGS muni halda áfram að einblína á „að gera það sem við erum góð í.“

Ummæli hennar komu í kjölfar þess að Jay Shambaugh, aðstoðarframkvæmdastjóri bandaríska fjármálaráðuneytisins í alþjóðamálum, gagnrýndi sjóðinn og sagði að hann ætti ekki að taka að sér hlutverk sérfræðings þegar kæmi að loftslagsmálum.

Bandaríkin eru jafnframt einn stærsti fjármögnunaraðili sjóðsins.

Aðrir bandarískir embættismenn hafa þrýst á AGS að betrumbæta verkefni sjóðsins og hafa sumir embættismenn sakað sjóðinn um að víkja frá meginverkefni sínu vegna mála eins og loftslagsbreytinga. Repúblíkanar hafa þá verið sérstaklega gagnrýnir í þessu máli en Bandaríkjaforseti hefur einnig látið í sér heyra.

„AGS er fullt af ótrúlega hæfileikaríku fólki sem getur gert margt jákvætt þegar kemur að margvíslegum áskorunum sem hagkerfi heimsins stendur frammi fyrir. Við ættum samt ekki að freistast þess að reyna að tækla öll vandamál heimsins. Verkefni sjóðsins eru einfaldlega of nauðsynleg til að víkja frá,“ sagði Jay Shambaugh.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar til að stuðla að alþjóðlegum efnahagslegum stöðugleika og er þekktur fyrir að aðstoða ríkisstjórnir í neyð með lágkostnaðarlánum.