Í greinargerð við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um sameiningu SÍ og FME, þegar það var fyrst lagt fram, sagði að ganga mætti út frá því að ýmis tækifæri skapist til hagræðingar í sameinaðri stofnun. Meðal annars ætti slíks að geta gætt fljótlega hvað varðar ýmis gagnaskil frá eftirlitsskyldum aðilum og breytingu á eftirlitsgjaldi, sem fjármagnar fjármálaeftirlitið.

Enn sem komið er virðist það ekki hafa komið fram. Eftirlitsgjaldið hefur hækkað stöðugt milli ára en frá árinu 2019 hefur gjaldið hækkað um 439 milljónir króna, sé miðað við verðlag hvers árs. Á föstu verðlagi hefur gjaldið lækkað lítillega undanfarin ár, þótt það hafi verið sveiflukennt. Þannig var það um og yfir 2.900 m.kr. árin 2017-2019, fór niður í2.844 m.kr. árið 2020, 2.797 m.kr. árið 2021 og 2.668 m.kr. árið 2022. Gjaldið hækkaði aftur í ár og er 2.769 m.kr fyrir árið 2023.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir áframhaldandi hækkun eftirlitsgjalds undanfarin ár hafa valdið þeim áhyggjum.

„Fjármálafyrirtækin hafa ekki orðið vör við að gagnaskil hafi almennt orðið einfaldari jafnvel þó upp hafi verið tekið staðlað evrópsk skýrsluform á sumum sviðum. Við teljum því að þar séu tækifæri til að gera betur og ná fram frekari hagkvæmni og skilvirkni.“

„Aðildarfélög okkar eru fylgjandi traustu og skilvirku eftirliti. En á sama tíma og fjármálafyrirtækin hafa hagrætt sem hefur leitt til umtalsverðra kostnaðarlækkana, m.a. með fækkun útibúa, fækkun starfsmanna og nýtingu stafrænna lausna, þá virðist slík þróun ekki hafa átt sér stað í sama mæli hjá eftirlitsaðilanum enn sem komið er.“

Nánar er fjallað um sameiningu Seðlabankans og FME í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.